CLARA
TÓNLEIKHÚS UM LÍF OG LIST CLÖRU SCHUMANN
SALNUM Í KÓPAVOGI (TÍBRÁ)
8. MARS 2022
Tónleikhúsverk um píanóleikarann og tónskáldið Clöru Schumann. Lífshlaup og tónlist hennar er í forgrunni auk verka eftir Robert Schumann og Johannes Brahms.
Clara Schumann er ein af þeim örfáu konum sem eiga sér sess í sögu sígildrar vestrænnar tónlistar á 19. öld. Í um 150 ár hefur oftast verið fjallað um hana sem eiginkonu Roberts Schumanns, eins þekktasta tónskálds 19. aldar, og hinn meinta ástarþríhyrning þeirra og Johannesar Brahms, en í tónleikhúsi Cauda Collective og Miðnættis verður saga Clöru sögð út frá hennar sjónarhorni.
Clara fæddist í Leipzig, Þýskalandi, þann 13. september árið 1819. Hún hóf píanónám fimm ára og 16 ára var hún orðin þekkt um alla Evrópu fyrir sína snilldar spilamennsku. Þrátt fyrir mótmæli föður síns giftist Clara tónskáldinu Robert Schumann árið 1840 og á árunum 1841 til 1854 eignuðust þau átta börn. Þrátt fyrir að sinna stóru heimili og eiginmanni með geðhvarfasýki hélt Clara áfram starfi sínu sem tónlistarmaður. Hún ferðaðist um og spilaði á tónleikum, kenndi við tónlistarháskólann í Leipzig og samdi eigin tónlist, s.s. píanókonsert, kammermúsík og sönglög. Árið 1853 urðu sterk vinnatengsl á milli Schumann hjónanna og hins unga tónskálds Johannesar Brahms og héldu Clara og Brahms áfram sambandi eftir dauða Roberts Schumanns árið 1856.
Í bréfum milli Clöru og Brahms skrifa þau bæði opinskátt um að vera ástfangin hvort að öðru en Clara var alla tíð trú eiginmanni sínum, jafnvel eftir dauða hans.
Tíbrá tónleikaröð er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogs.
Tónleikarnir eru styrktir úr Tónlistarsjóði.
ÞÁTTAKENDUR:
Björk Níelsdóttir, sópran og handrit
Jóhann Axel Ingólfsson, leikari
Sigrún Harðardóttir, fiðla og handrit
Þórdís Gerður Jónsdóttir, selló og handrit
Hrönn Þráinsdóttir, píanó
Agnes Wild, leikstjórn og handrit
Eva Björg Harðardóttir, búningar og leikmynd
Jane Ade Sutarjo, aðstoð við þróun verkefnis